10. fundur stjórnar

24.05.2011 12:30

Dagskrá:
  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Staða nefndastarfa
    - Stutt yfirlit hvers formanns
  3. Nefndafundir nk. miðvikudag
  4. Fyrirkomulag 10. ráðsfundar og dagskrá
    - Málefni fundarins
    - Áhersluatriði og stefnumörkum tiltekinna fulltrúa
  5. Önnur mál

Fundargerð

10. fundur stjórnar - haldinn 24. maí 2011, kl. 12.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson, varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B, og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C. Þá sátu fundinn varaformenn verkefnanefnda B og C, nánar tiltekið Vilhjálmur Þorsteinsson og Íris Lind Sæmundsdóttir.

Jafnframt sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Boðað var til fundarins í lok síðasta stjórnarfundar og áréttað með tölvupósti 23. maí.

Formaður setti fundinn og stýrði honum.

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 9. stjórnarfundar var lögð fram til kynningar.

2. Staða nefndarstarfa

Fyrirsvarsmenn nefnda gerðu grein fyrir umræðum sem farið hefðu þar fram og skipulagi áframhaldandi vinnu.

3. Nefndafundir næstkomandi miðvikudag

Fundur A-nefndar verður kl. 9.00-12.00. Fundur C-nefndar verður kl. 13.00-15.00. Fundur B-nefndar verður kl. 15.00-17.00.

4. Fyrirkomulag 10. ráðsfundar og dagskrá

Nefndir munu gera grein fyrir málefnum sínum í röðinni B, C, A. B-nefnd mun leggja fram tillögur bæði til kynningar og afgreiðslu. C-nefnd mun gefa skýrslu en ekki mæla fyrir tillögum. A-nefnd gerir ráð fyrir að leggja fram tillögur til kynningar.

Ekki var gert ráð fyrir dagskrárliðnum „Stefnuræður fulltrúa", enda hafa formanni ekki borist beiðnir þar um.

5. Önnur mál

Rætt var um skipulag í fundarsal og Katrín Fjeldsted ítrekaði athugasemdir í því efni. Framkvæmdastjóri lýsti því að gerðar hefðu verið lagfæringar, fulltrúum til hægðarauka. Frekari breytingar væru kostnaðarsamar og tæknilegum erfiðleikum háðar.

Pawel Bartoszek lagði til að umfjöllun um fyrirkomulag í fundarsal yrði lokið og var tillaga hans samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Katrín Fjeldsted sat hjá.

Vilhjálmur Þorsteinsson lagði til að dregin yrði til baka samþykkt frá 8. fundi stjórnar um að breyta sætaskipan fulltrúa. Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og fyrri sætaskipan tekur því aftur gildi. Ari Teitsson sat hjá.

6. Næsti fundur

Næsti fundur stjórnar verður haldinn mánudaginn 30. maí, kl. 16.00.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13.05.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.