18. fundur C-nefndar

30.05.2011 10:00

Dagskrá:

 

  1. Fundargerðir.
  2. Erindi.
  3. Kosningar og kjördæmaskipan.
  4. Önnur mál.

 

Fundargerð

18. fundur C-nefndar, haldinn 30. maí 2011, kl. 10.00-14.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson og Þorkell Helgason. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Fundargerðir

Fundargerðir 11-17 voru lagðar fram til samþykktar. Þær voru samþykktar án athugasemda nema 12. fundargerð, sem var látin bíða til annars fundar.

2. Erindi

Lögð voru fram ný erindi sem borist hafa um kosningar og kjördæmaskipan og þau tekin til umræðu (sjá viðauka).

3. Kafli um kosningar og alþingismenn

Formaður fór yfir greinar um kosningar og kjördæmaskipan í nágrannalöndunum. Einfalt ákvæði er í Danmörku. Noregur er með kjördæmaskiptinguna skrifaða inn í stjórnarskrána (eins og var hjá okkur til 1999). Holland er með stutt ákvæði eins og Þýskaland.

Formaður fór yfir umboð frá síðasta fundi og starfshóps um að útfæra kerfi þar sem verður heildarkosning á landsvísu en ákveðnum kjördæmum eða svæðum séu tryggð ákveðin þingsæti. Formaður lagði fram spurningar til að vinna málið fram á veg.

Rætt var um hvenær aðkoma sérfræðinga og hverra ætti að vera í þessu máli, en mikilvægt að svara grunnspurningum fyrst.

Munur er á því hvort við lítum á landið sem eitt kjördæmi en landsvæðum tryggð sæti, eða hvort þetta séu raunveruleg kjördæmi með lágmarks fjölda grunnsæta. Ekki skýr niðurstaða um þetta.

Rætt var um að ekki eigi að ákveða nákvæmlega fjölda kjördæma í stjórnarskrá.

Rætt var um 18 til 26 þingmenn sem tryggða í kjördæmum. Einnig rætt um að nota orðalagið að þriðjungur eða fjórðungur eða fimmtungur þingmanna skuli vera tryggðir kjördæmum fremur en ákveðna tölu. Verður að tryggja kynjajöfnuð og ákveðnum landsvæðum sæti ef það verður persónukjör.

Rætt var um að flokkarnir ráði hvort þeir hafi raðaða eða óraðaða lista. RæEinnig hvort atkvæði við lista sé samþykki við röðun listans eða gefur það einungis listanum vægi og þeim sem raða eftirlátið röðunin. Kjarni málsins er að leyfa raðaða lista en annað er útfærsluatriði. Almenn samstaða um að flokkar geti valið hvort þeir bjóði fram raðaða eða óraðaða lista. Rætt var um að boðið verði upp á kjördæmislista að meginstefnu, og tryggja jafnt vægi milli kjördæma og flokka.

Mikilvægt að atkvæðavægi væri alls staðar það sama en kjósandi getur kosið fólk í öðru kjördæmi, en til viðbótar eru tryggð grunnsæti.

Rætt um kjördæmavarið landskjör. Að baki hverju þingsæti sé að minnsta kosti sama atkvæðamagn og að meðaltali á landinu. Boðnir fram listar í kjördæmum og landslista. Flokkarnir ráða því hvernig þeir dreifa sínum frambjóðendum, á kjördæmalista eða landslista. Kjósendur velja í persónukjöri ýmist af lands- eða kjördæmalista. Þeir ná kjöri sem fá mest fylgi í heild, sama hvaðan þau atkvæði koma, nema það er hlaupið yfir menn til að tryggja grunnsætin. Boðið upp á raðaða eða óraðaða lista.

Rætt var um að erfitt geti verið að koma flóknu eða nýju kosningakerfi í gegn, og hugmynd um að hafa einfalt ákvæði þar sem ekki sé tekið á kjördæmamálum í stjórnarskrá.

Formaður ræddi þær tillögur sem fram eru komnar, að farið verði í vinnu í starfshópi að útfæra það hvernig hægt er að samræma skoðanir manna, eða að leggja minni áherslu á kjördæmamálin, halda því hjá Alþingi og einblína á persónukjör og jöfnun atkvæða.

Pawel, Þorkell, Ómar og Ari ætla að setjast niður og vinna að leið að sáttum, vinna að tillögu eða tillögum og hún eða þær síðan bornar undir fund.

4. Önnur mál

Engin önnur mál.

5. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði þriðjudaginn 31. maí kl. 9.30, en til hans yrði boðað með tilkynningu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14.00.

Viðauki

33559 Guðmundur Hörður Guðmundsson - Persónukjör til efri deildar Alþingis.

33556 Jóhannes Ágústsson og Jórunn Jóhannesdóttir - Flokksframboð og persónuframboð.

33540 Hafsteinn Sigurbjörnsson - Kosningar.

33536 Guðmundur H. Bjarnason - Lýðræði eða flokksræði.

33531 Júlíus B. Kristinsson - Áhrif fjármálavalds á lýðræði takmörkuð.