17. fundur B-nefndar sameiginlegur

01.06.2011 09:00

Dagskrá:

Dagskrá.

1. Tillögur að ákvæðum um hlutverk og stöðu forseta Íslands lagðar fram til kynningar.

Fundargerð

17. sameiginlegur fundur B-nefndar haldinn 1. júní 2011, kl. 9.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Katrín Fjeldsted, formaður, Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður, Pétur Gunnlaugsson, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Gísli Tryggvason, Erlingur Sigurðarson, Þórhildur Þorleifsdóttir og Eiríkur Bergmann Einarsson.

Aðrir mættir fulltrúar voru: Guðmundur Gunnarsson, Salvör Nordal, Ari Teitsson, Örn Bárður Jónsson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Katrín Oddsdóttir, Pawel Bartoczek, Lýður Árnason, Íris Lind Sæmundsdóttir, Illugi Jökulsson, Silja Bára Ómarsdóttir og Dögg Harðardóttir.

Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.

Formaður, Katrín Fjeldsted, setti fundinn.

1. Tillögur að ákvæðum um hlutverk og stöðu forseta Íslands lagðar fram til kynningar.

Formaður gerði grein fyrir tillögum og lagði fram til umræðu.

Gerð var athugasemd við 2. gr. þess efnis að óþarft sé að tiltaka lágmarksaldur en almennt tekið undir takmörkun á setutíma, hvort heldur tvö eða þrjú kjörtímabil. Gerð var tillaga um að kjörtímabil sé 5 ár. Bent á að ýmis rök mæli með því að forseti skuli vera minnst 35 ára þegar hann tekur við embætti, t.d. þroski og lífsviska. Þá dugi tvö kjörtímabil, hins vegar séu þrjú kjörtímabil ágætis málamiðlun.
Athugasemdir voru gerðar við að forsetinn sé gerður nánast valdalaus samkvæmt framliggjandi tillögum um leið og ekki er tekin upp bein kosning framkvæmdarvalds. Í því felist ekki nægileg valddreifing. Því er tilsvarað að atriði í tengslum við málskotsrétt forseta séu óákveðin. Þá liggi fyrir í tillögunum ýmsar athafnir sem telja megi til valdhlutverka t.a.m. til að náða og veita sakaruppgjöf samkvæmt tillögunum.

Þá var bent á að forsetinn eigi ekki að vera ábyrgðarlaus af sínum embættisverkum.
Varðandi handhöfn forsetavalds og lausn forseta var bent á að skipta út orðinu „sjúkleiki“ og nota þess í stað orðið „veikindi“. Þá eigi að taka til athugunar hvort ákvæðið fari alveg út.
Samþykkt að athuga orðalag vegna starfskjara forseta.

Ráðsfulltrúar lýstu almennt ánægju yfir því að ákvæði séu felld brott sem hafi ekki efnislega þýðingu, frekar sé um að ræða lepphlutverk. Nú sé skýrt hvað forseti gerir og hvað ekki.

Varðandi eið forseta í 8. gr. tillagna sé óþarft að tilgreina tvö afrit í stjórnarskrá. Nóg að það komi fram að eiður hans skuli vera skriflegur.

Almennt var lýst yfir stuðningi með því að forseti Alþingis dugi sem staðgengill forseta.
Nefndin lagði til tvo valkosti við lausn forseta frá embætti. Almenn umræða fór fram um þessa valkosti. Meginþorri lýsti þeirri skoðun að valkostur 2 komi fremur til greina enda sé forseti þjóðkjörinn og þjóðin eigi að staðfesta lausn hans, fremur en að þingið eigi að leysa hann frá störfum.
Þá var spurt af hverju beri að fella niður ríkisráð. Því er svarað að það sé í samhengi við að nú liggur fyrir að skýra ríkisstjórnarfundi.

Almennar umræður um forseta Íslands:

Athugasemd var gerð varðandi stjórnarmyndun. Bent var á að réttara sé að forseti hafi möguleika til að grípa inn í þegar neyð ríkir við stjórnarmyndun t.d. með því að mynda utanþingsstjórn. Þá var enn fremur bent á að ef forseti eigi að gegna hlutverki neyðarhemils eigi forseti að sæta takmörkun á honum sem og öðrum valdhöfum.

Sumir ráðsfulltrúar lýstu þeim skoðunum að forseti eigi fyrst og fremst að vera sameiningartákn og menningarlegur fulltrúi þjóðarinnar. Þá megi hann hugsanlega vera með eftirlitshlutverk. Mikilvægt að halda inni takmörkun á setutíma og þrjú kjörtímabil eigi að vera hámark og helst væri gott að hafa aldursákvæði forseta inni. Kostur að það sé sett inn að það þurfi að vera meirihluti fyrir kosningu í embætti.

Grundvallarhugmynd er að skýra ábyrgðarhlutföll, þannig að aðilar séu ekki að fara með völd sem þeir bera ekki ábyrgð á. Þá var rætt hvernig sé hægt að fela honum pólitísk hlutverk ef hann eigi á sama tíma að tala rómi ríkisstjórnar t.d. í utanríkismálum. Í þeim tilvikum sé nauðsynlegt að hann beri sjálfstæða ábyrgð þ.e. þegar hann fer með opinbert vald.

Menningarlegt hlutverk forsetans er mjög virðingarvert og mikilvægt og í samfélagi sem hefur tilhneigingu til að mæla öll verðmæti frá efnahagslegum sjónarhóli er mikil þörf á að halda uppi umræðu um gildi, verðmæti og menningu – andleg gildi sem eiga að vera jafnrétthá og ekki síður verðmæt en hin.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 11.00.