11. fundur B-nefndar - sameiginlegur

18.05.2011 11:00

Dagskrá:

 

1. Tillögur B-nefndar um eftirlit Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu lagðar fram, ákvæði 10-16.

 

Fundargerð

11. Fundur B-nefndar sameiginlegur fulltrúafundur haldinn 18. maí 2011, kl. 11.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Katrín Fjeldsted, formaður, Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður, Pétur Gunnlaugsson, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Erlingur Sigurðarson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson og Gísli Tryggvason.

Aðrir mættir fulltrúar voru Andrés Magnússon, Katrín Oddsdóttir, Ari Teitsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, Salvör Nordal, Guðmundur Gunnarsson, Freyja Haraldsdóttir, Dögg Harðardóttir, Örn Bárður Jónsson, Þorvaldur Gylfason, Þorkell Helgason og Lýður Árnason.

Þá sat fundinn Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir og ritaði fundargerð.

Formaður, Katrín Fjeldsted, setti fundinn. Gengið var til dagskrár eins og hún var birt hinn 17. maí með tölvupósti.

1. Tillögur B-nefndar kynntar til umræðu

Formaður gerði grein fyrir tillögur B-nefndar um eftirlit Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Framlögð gögn fyrir fundinn: Tillaga B-nefndar að texta í áfangaskjali: Alþingi (Efling löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldi) - störf Alþingis.

· Tillaga 10, Meðferð þingmála

Athugasemd var gerð við annan málslið 1. mgr. þar sem ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort þjóðréttarsamningar muni öðlast lagagildi við fullgildingu. Mögulega er ákvörðun ráðsins að taka upp eineðli þ.e. bein réttaráhrif þjóðréttarsamninga, en annars er ákvæðið í raun óþarft. Ákvæðið verður samþykkt innan hornklofa þar til tekin verður afstaða til þess hjá nefnd C. Bent er á að nefnd A hefur þegar samþykkt að mannréttindasamningar fái lagagildi við fullgildingu.

Í sama ákvæði er fjallar um meðferð þingmála er bent á hvort hægt sé að breyta orðalagi á þann hátt að orðalag sé jákvætt en ekki neikvætt, í 3. mgr. er jákvætt orðalag.

· Tillaga 11, Þingrof

Varðandi ákvæði um þingrof kemur fram að forseti er hafður innan hornklofa þar sem umfjöllun um stöðu embættisins og aðkomu þess að þingrofi er ekki lokið. Breyting nefndarinnar felst í því að setja lágmarkstíma á kosningar m.a. til að koma í veg fyrir að meirihluti misbeiti heimildinni. Með slíkum tímafresti gæfist nýjum framboðum kostur á að undirbúa framboð og kosningabaráttu. Gegn þessu komu fram sjónarmið um að tveggja og hálfs mánaðar kosningabarátta væri of löng. Lögð var fram tillaga um að hámark sem gæti liðið til kosninga væri 8 vikur í stað 10. Í því tilviki gæti farið svo að aðeins tveir kosningadagar, þ.e. laugardagar, gætu komið til greina. Þá var bent á að nota orðið „ekki" í stað orðsins „eigi". Nefndin tekur það til greina að stytta megi hámarkið, en á móti fækkar kjördögum.

Fram kemur sú hugmynd frá Þorkatli Helgasyni og Gísla Tryggvasyni að kjósendur geti í ákveðnum tilvikum krafist þingrofs.

· Tillaga 12, Eftirlits - og stjórnskipunarnefnd

Fram kom það sjónarmið að hugmynd að verkefnum Lögréttu geti skarast við verkefni nefndarinnar. Það þyrfti að skoða með hvaða hætti Lögrétta eigi samkvæmt núverandi tillögu að athuga athafnir ráðherra og hvernig eftirlits- og stjórnskipunarnefnd, sem hefur það sama hlutverk, skyldi haga sínu starfi. Gjalda eigi varhug við að búa til of margar eftirlitsstofnanir innan kerfisins sem þjóni svipuðu hlutverki. Þó skuli athuga að nefndin verður fastanefnd þingsins skipuð utanþingsmönnum, en Lögrétta sé hópur sérfræðinga, eins konar lagabætir auk þess hlutverks að taka afstöðu til ábyrgðar manna.

· Tillaga 13, Rannsóknarnefndir Alþingis

Ábending kom um að skoða orðalagið „krefja þá er máli tengjast". Fram kom að hér væri þrengt orðalag þannig að mögulega gæti það aðeins átt við þann sem telst aðili að máli, en ekki vitni eða sérfræðinga innan stjórnsýslunnar.

· Tillaga 14, Umboðsmaður Alþingis

Tillagan var aðeins kynnt en er ekki fullmótuð. Lagt fyrir gesti að innan nefndarinnar væri umræða um kosti í 2. mgr. frá 1-4.

Fram kom hugmynd sem margir aðhylltust, að embættið skyldi kallast umboðsmaður almennings.

Efnisleg ábending kemur fram um að mæla eigi fyrir um tímapressu á stjórnvald til viðbragða vegna álita umboðsmanns Alþingis.

Þá var jafnframt bent á að ef hann eigi að hafa að fullu sjálfstæði í starfi þá eigi að skipa hann ótímabundið og sambærilegan hátt eigi að hafa á og við skipun dómara. Þá verði að hugsa út í að eigi hann að hafa heimild til að höfða mál, í hvaða tilvikum það sé og með hvaða hætti. Mikilvægt sé að huga að útfærslunni.

Enn fremur er bent á að punktinn eigi að hafa mun framar, en heildarstarfslýsing hans þurfi ekki að vera í stjórnarskránni. Stjórnarskráin eigi að vera knöpp og hafa meginreglur, nema ef sérstaklega þurfi að hafa ákvæði ítarleg, en það eigi ekki við í þessu tilviki.

Bent er á að hægt sé að útfæra það að umboðsmaður heyri undir Alþingi í ákvæðinu, en hins vegar getur heiti hans vel verið umboðsmaður almennings, en nefndarmönnum leist almennt vel á að nafninu yrði breytt.

· Tillaga 15, Ríkisendurskoðun

Engar athugasemdir lagðar fram.

· Tillaga 16, Hagsmunaskráning þingmanna/ráðherra

Bent var á að almennt hæfi ráðherra eigi fremur heima í ríkisstjórnarkafla, en nefndin tók undir það. Ekki hefur verið lögð til endanleg uppröðun.

Nefnt er að taka eigi út öll önnur störf er tengjast embættinu. Þá var tekið fram að hæpið væri að banna ráðherra öll störf utan embættisins, enda gilti félagafrelsi á landinu, rétturinn til að taka þátt og standa fyrir utan.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 12.30.