42. fundur B-nefndar

25.07.2011 13:30

Dagskrá:

1. Breytingartillögur B-nefndar fyrir 18. ráðsfund (2. umræða)

2. Umsögn Eiríks Tómassonar, 25. júlí.

- Breytingartillögur.

3. Fundargerðir 18-42.

Fundargerð

42. fundur B-nefndar haldinn 25. júli 2011, kl. 13:30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mættir voru eftirtaldir fulltrúar: Katrín Fjeldsted, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Pétur Gunnlaugsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarsson, Gísli Tryggvason og Vilhjálmur Þorsteinsson.

Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.

Formaður Katrín Fjeldsted setti fundinn.

 

1. Breytingartillögur B-nefndar fyrir 18. ráðsfund (2. umræða)

Niðurstöður nefndar um ákvæði er varðar skipun embættismanna og sjálfstæði stofnana. Tvær tillögur kynntar:

a. Skipun embættismanna:
Ráðherrar og önnur stjórnvöld veita þau embætti er lög mæla.
Hæfni og málefnaleg sjónarmið skulu ráða við skipun í embætti.
Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Synji forseti skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með ⅔ atkvæða til að hún taki gildi.
Ráðherra skipar í önnur æðstu embætti, eins og þau eru skilgreind í lögum, að fenginni tillögu sjálfstæðrar nefndar. Velji ráðherra ekki í slíkt embætti einn þeirra sem nefndin telur hæfasta er skipun háð samþykki Alþingis með ⅔ atkvæða.
Forseti Íslands skipar formann nefndarinnar. Um nánari skipan hennar og störf skal mælt fyrir í lögum.
Í lögum má kveða á um að í tiltekin embætti megi einungis skipa íslenska ríkisborgara. Krefja má embættismann um eiðstaf að stjórnarskránni.

 

Tillagan er samþykkt með naumum meirihluta B-nefndar ásamt breytingu á orðalagi frá stjórnsýslunefnd yfir í nefnd. Samþykkt að greinargerð með breytingartillögu verði unnin af flutningsmönnum breytingartillögunnar.
Bókun: Vilhjálmur Þorsteinsson og Eiríkur Bergmann Einarsson bóka andstöðu við tillöguna.

b. Sjálfstæðar stofnanir:
Í lögum má kveða á um að tilteknar stofnanir ríkisins, sem gegna mikilvægu eftirliti eða afla upplýsinga sem nauðsynlegar eru í lýðræðisþjóðfélagi, njóti sérstaks sjálfstæðis. Starfsemi slíkra stofnana verður ekki lögð niður, henni breytt að verulegu leyti eða fengin öðrum stofnunum, nema með lögum sem samþykkt eru með ⅔ atkvæða á Alþingi.

4 atkvæði með, 2 hjásetur og einn á móti.

Bókun: Vilhjálmur Þorsteinsson bókar andstöðu við tillöguna.

c. Sala á ríkisfyrirtækjum á opnum markaði.
B-nefnd telur að falla verði frá tillögunni, þrátt fyrir að markmið tillögunar sé til eftirbreytni. Hins vegar er óljóst hvaða orðalagið nær best utan um markmiðið til að útfærslan verði með þeim hætti sem hugsun stendur til. Óljóst hvað orðið „einkavædd" vísar til. Óljóst hvað er sala á „opnum markaði" og ekki er tími til að fá lögfræðileg álit á umræddum texta og mat á áhrifum hans.

Samþykkt var að setja texta í almennum athugasemdum að mikil umræða hefði verið um þessi atriði í ráðinu að fyrirtæki væru seld í opnum söluferli og gætt væri jafnræðis.

2. Umsögn Eiríks Tómassonar, 25. júlí.
Nefndarmenn ræddu athugasemdir Eiríks Tómassonar.

3. Fundargerðir 18-42.
Fundargerðir 18-42 lagðar fram og samþykktar.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 17:00.