Starfsreglur Stjórnlagaráðs

Samþykktar á ráðsfundi 13. apríl 2011 og breytt á 17. ráðsfundi 20. júlí 2011

Við fulltrúar í Stjórnlagaráði,

setjum ráðinu eftirfarandi

STARFSREGLUR

I. STJÓRNSÝSLA STJÓRNLAGARÁÐS

1. gr.

Setning Stjórnlagaráðs, kosning formanns og varaformanns.

Aldursforseti setur fyrsta fund Stjórnlagaráðs og stýrir fundum þar til formaður hefur verið kosinn. Formaður skal kosinn skriflegri kosningu úr hópi ráðsfulltrúa. Aldursforseti stýrir kosningunni, lýsir tilnefningum og kallar eftir fleirum. Kosið skal á milli þeirra fulltrúa sem tilnefndir eru.

Rétt kjörinn formaður er sá sem hlotið hefur hreinan meirihluta atkvæða allra ráðsfulltrúa. Fái enginn tilskilinn fjölda atkvæða skal kjósa um þá tvo fulltrúa er flest atkvæði fengu. Fái þeir jafnmörg atkvæði við seinni kosninguna skal kosið að nýju. Sé enn jafnt ræður hlutkesti hvor þeirra verður formaður.

Formaður stýrir kosningu varaformanns. Varaformaður skal vera af gagnstæðu kyni við formann en að öðru leyti gilda um kosninguna ákvæði 2. og 3. mgr. að breyttu breytanda.

2. gr.

Kosning nefndaformanna og varamanna þeirra.

Eftir að ráðsfundur hefur ákveðið tölu verkefnanefnda og skipt verkum með þeim sbr. 2. mgr. 4. gr. stýrir formaður kosningu nefndaformanna og varaformanna úr hópi fulltrúa í Stjórnlagaráði. Formaður leitar eftir því hvaða fulltrúar gefa kost á sér til þeirra starfa. Formaður og varaformaður Stjórnlagaráðs geta ekki gegnt formennsku í nefndum.

Um kosningu nefndarformanns og varaformanns gilda að öðru leyti ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 1. gr. að breyttu breytanda.

Formanni er heimilt að leggja til við ráðsfund að víxlað sé formanni og varaformanni í nefnd eða nefndum í þeim tilgangi að jafna hlut kynja.

3. gr.

Verkstjórn Stjórnlagaráðs.

Formaður, varaformaður og formenn verkefnanefnda, þegar þeir hafa verið kosnir skv. 2. gr., mynda stjórn Stjórnlagaráðs. Varaformenn verkefnanefnda eru staðgenglar formanna í stjórn. Formaður Stjórnlagaráðs er formaður stjórnar.

Meginhlutverk stjórnar er að skipuleggja starf Stjórnlagaráðs og stýra því í samræmi við ákvæði þingsályktunar Alþingis um skipun Stjórnlagaráðs frá 24. mars 2011 og starfsreglna þessara. Stjórnin skal leggja starfsáætlun fyrir ráðsfund til afgreiðslu. Áætlunina skal endurskoða reglulega eftir því sem verkinu vindur fram.

Formaður Stjórnlagaráðs ber fjármálalega ábyrgð á störfum ráðsins gagnvart undirbúningsnefnd sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 90/2010.

II. STARFSHÆTTIR STJÓRNLAGARÁÐS

4. gr.

Ráðsfundir, verkefnanefndir og starfshópar.

Almennir fundir Stjórnlagaráðs nefnast ráðsfundir. Ráðsfundur er æðsta vald Stjórnlagaráðs. Formaður stýrir ráðsfundum og varaformaður í hans fjarveru. Taki formaður eða varaformaður þátt í almennum umræðum víkja þeir úr fundarstjóraembætti.

Verkefnum Stjórnlagaráðs samkvæmt þingsályktun um skipun ráðsins skal skipt á verkefnanefndir. Ráðsfundur ákveður tölu nefnda og skiptir störfum með þeim. Ráðsfundur getur fært til verkefni eftir því hvernig starfi ráðsins vindur fram.

Stjórn getur skipað starfshópa til tiltekinna verka. Starfshópar velja sér sjálfir forystu.

5. gr.

Skipting fulltrúa í verkefnanefndir og starfshópa.

Fulltrúar í Stjórnlagaráði, aðrir en formaður ráðsins, velja sér verkefnanefnd. Hver fulltrúi hefur einungis atkvæðisrétt í einni verkefnanefnd hverju sinni en öllum fulltrúum er heimilt að sækja nefndafundi með málfrelsi og tillögurétti.

Stjórnin getur haft frumkvæði að breyttri skipan nefnda í samráði við hlutaðeigandi. Einnig getur fulltrúi óskað eftir því við stjórn að vera fluttur milli nefnda. Tillögur stjórnar skulu bornar undir alla þá fulltrúa er málið varðar. Náist ekki samkomulag skal varpa hlutkesti milli þeirra fulltrúa sem lýst hafa áhuga á tilteknu verkefnasviði.

6. gr.

Fundarsköp.

Formenn Stjórnlagaráðs, verkefnanefnda og starfshópa ákveða dagskrá og boða til funda. Formanni er skylt að boða til fundar og taka mál á dagskrá ef þriðjungur atkvæðisbærra fulltrúa krefst þess með nægilegum fyrirvara. Boða skal til ráðsfunda með dagskrá í tölvupósti eigi síðar en daginn fyrir fund. Jafnframt skal dagskrá vera aðgengileg á vef Stjórnlagaráðs.

Fundur er því aðeins ályktunarbær að meirihluti atkvæðisbærra fulltrúa sé viðstaddur. Náist ekki samstaða um afgreiðslu máls skal afl atkvæða ráða.

Ef fundarstjóri telur að umræður hafi dregist úr hófi fram getur hann lagt til takmarkanir á ræðutíma. Tillagan skal borin undir atkvæði umræðulaust.

Að öðru leyti gilda almenn fundarsköp, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar, á fundum Stjórnlagaráðs, í stjórninni, á nefndafundum og á fundum í starfshópum.

Ráðsfulltrúa er skylt að sækja alla fundi þar sem hann á setu nema lögmæt forföll banni enda tilkynni hann um það fyrirfram til skrifstofu Stjórnlagaráðs.

7. gr.

Fundargerðir.

Halda skal fundargerðir um ráðsfundi, fundi í stjórn og í nefndum. Starfsmaður Stjórnlagaráðs ritar fundargerð. Fundargerðir skulu að lágmarki tilgreina fundartíma, dagskrá fundar, hverjir voru viðstaddir, ákvarðanir um meðferð og afgreiðslu mála og bókanir fundarmanna.

Fundargerðir skulu bornar upp til samþykktar á næsta fundi eða svo fljótt sem auðið er. Fundargerðir skal birta á vef Stjórnlagaráðs þegar þær hafa verið samþykktar. Heimilt er að birta drög að fundargerð ráðsfunda eftir að fulltrúar hafa haft ráðrúm til að gera athugasemdir.

8. gr.

Birting skjala.

Skjöl ráðsfunda og nefndarfunda skal birta eins skjótt og við verður komið á vef Stjórnlagaráðs. Sama gildir um umsagnir og erindi er berast ráðinu, skv. 10. gr.

9. gr.

Opnir fundir.

Ráðsfundir eru opnir. Nefndum og starfshópum er heimilt að hafa fundi opna og skal þá birta fundarboð og dagskrá á vef ráðsins eigi síðar en daginn fyrir fund. Stjórn getur sett nánari reglur um aðgang almennings að fundum.

10. gr.

Umsagnir og erindi.

Koma má erindum á framfæri við Stjórnlagaráð. Stjórnlagaráð, nefndir og starfshópar geta óskað umsagna um mál frá aðilum utan ráðsins og boðið gestum á fundi. Stjórnin getur sett reglur um þessi atriði.

11. gr.

Útsending frá fundum og birting á vef.

Ráðsfundir eru sendir beint út og upptökur af þeim aðgengilegar á vef Stjórnlagaráðs. Þegar frumvarp til stjórnarskipunarlaga er til formlegrar umfjöllunar, sbr. 15. gr., skal texti umræðunnar birtur á vef ráðsins. Opnir fundir nefnda og starfshópa eru hljóðritaðir og upptökur aðgengilegar á vef ráðsins.

III. FRUMVARP TIL STJÓRNARSKIPUNARLAGA OG MEÐFERÐ ÞESS

12. gr.

Frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

Stjórnlagaráð semur frumvarp til stjórnarskipunarlaga, sbr. þingsályktun um skipun Stjórnlagaráðs.

13. gr.

Skýrsla stjórnlaganefndar.

Stjórnlagaráð tekur við skýrslu stjórnlaganefndar og birtir hana á vef ráðsins. Stjórn gerir tillögu um upphafsmeðferð skýrslunnar á ráðsfundi.

14. gr.

Undirbúningur frumvarps til stjórnarskipunarlaga.

Ráðsfundur ákveður svo fljótt sem auðið er hvernig hefja skuli undirbúning frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Skjal það sem til verður, með áorðnum breytingum hverju sinni, nefnist áfangaskjal og verður aðgengilegt á vef Stjórnlagaráðs.

Tillögur um breytingar á áfangaskjalinu frá fulltrúum, nefndum eða stjórn skulu teknar til afgreiðslu á ráðsfundi að jafnaði einu sinni í viku. Í áfangaskjalinu geta hverju sinni verið valkostir um einstakar greinar eða kafla, enda njóti valkostur stuðnings fimmtungs ráðsfulltrúa hið minnsta.

Almenningur getur tjáð sig um áfangaskjalið, einstök ákvæði þess og valkosti með opinberum hætti og undir nafni á vef Stjórnlagaráðs.

Stjórn skal kanna hvort og með hvaða hætti unnt sé að leita enn frekar eftir afstöðu þjóðarinnar til valkosta að því er varðar einstök ákvæði frumvarps til stjórnarskipunarlaga eða eftir atvikum einstaka kafla þess. Stjórnin skal leggja tillögur sínar um framkvæmd þessarar málsgreinar fyrir ráðsfund í tæka tíð.

15. gr.

Framlagning og meðferð draga að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

Stjórn Stjórnlagaráðs leggur fyrir ráðsfund drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga á grundvelli áfangaskjals þegar undirbúningi þess er lokið, sbr. 14. gr. Frumvarpsdrögin skulu rædd við tvær umræður á ráðsfundum.

Fyrri umræðu skal skipt eftir efnisþáttum frumvarpsdraganna og mæla fulltrúar nefnda fyrir þeim efnisþáttum sem nefnd þeirra hefur fjallað um, eða formaður Stjórnlagaráðs að öðrum kosti. Að lokinni fyrri umræðu skal frumvarpsdrögunum ásamt breytingartillögum vísað til umfjöllunar í verkefnanefndum ráðsins. Heimilt er þó að ljúka umfjöllun um breytingartillögu með atkvæðagreiðslu við lok fyrri umræðu enda samþykki fyrsti flutningsmaður breytingartillögunnar þá málsmeðferð. Síðari umræða fer eigi fram fyrr en tveimur sólarhringum eftir að fyrri umræðu lýkur. Við síðari umræðu skal ræða greinar frumvarpsins og breytingartillögur við þær. Við lok umræðu skal greiða atkvæði um hverja grein frumvarpsins og breytingartillögur þær sem fram hafa komið. Loks skal greiða atkvæði um frumvarpið í heild sinni með áorðnum breytingum ef einhverjar eru. Óska má eftir nafnakalli við þessar atkvæðagreiðslur.

16. gr.

Frumvarp Stjórnlagaráðs til Alþingis.

Þá er frumvarp til stjórnarskipunarlaga hefur verið samþykkt við tvær umræður á ráðsfundi afhendir Stjórnlagaráð það Alþingi til meðferðar. Frumvarpinu fylgir tillaga ráðsins um málsmeðferð í samræmi við álit allsherjarnefndar Alþingis við meðferð þingsályktunar um skipun Stjórnlagaráðs.

IV. STARFSMENN RÁÐSINS

17. gr.

Framkvæmdastjóri.

Framkvæmdastjóri Stjórnlagaráðs stjórnar skrifstofu, starfsmannahaldi og rekstri ráðsins og hefur umsjón með fjárreiðum og eignum þess í umboði formanns ráðsins. Hann er formanni, stjórn og ráðinu til aðstoðar í öllu er varðar rekstur ráðsins. Þá situr framkvæmdastjóri eða fulltrúi hans fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt, og ráðsfundi með áheyrnarrétt.

Framkvæmdastjóri skal ásamt formanni sjá um að samþykktir ráðsins séu skrásettar og rita formaður og framkvæmdastjóri undir þær. Framkvæmdastjóri skal jafnframt annast um að öll erindi og umsagnir sem ráðinu berast séu tryggilega varðveitt, svo og önnur gögn er varða starfsemi Stjórnlagaráðs og rekstur þess.

18. gr.

Ritarar.

Fyrir hverja verkefnanefnd og í umboði hennar starfar nefndarritari. Ritari er starfsmaður skrifstofu Stjórnlagaráðs.

Aðallögfræðingur Stjórnlagaráðs er ritari ráðsfunda og stjórnar. Hann samræmir störf ritara.

19. gr.

Annað starfsfólk.

Starfsfólk Stjórnlagaráðs aðstoðar stjórn, nefndir, starfshópa og ráðsfulltrúa eftir þörfum í samræmi við starfslýsingu.

V. ÖNNUR ÁKVÆÐI

20. gr.

Varðveisla gagna.

Að loknu starfi Stjórnlagaráðs skulu rafræn gögn ráðsins, m.a. umræður, ráðsskjöl, erindi og umsagnir, varð veitt og vera aðgengileg á opinberum vef. Auk þess skal prenta út umræður og ráðsskjöl og binda inn í a.m.k. fjórum eintökum. Skal eitt eintak varðveitt hjá hverri eftirtalinna stofnana: Alþingi, Þjóðskjalasafni, Landsbókasafni og Amtsbókasafni á Akureyri. Hin útprentuðu eintök skulu merkt heitinu Stjórnlagaráðstíðindi. Skrifstofa Stjórnlagaráðs skal annast framkvæmd þessa.

21. gr.

Tilurð starfsreglnanna og breytingar á þeim.

Reglur þessar eru settar samkvæmt þingsályktun Alþingis um skipun Stjórnlagaráðs frá 24. mars 2011. Komi fram tillaga á ráðsfundi um breytingar á reglunum skal slík tillaga rædd og afgreidd við eina umræðu á ráðsfundi sem sérstaklega er boðað til í því skyni.