Leið að eflingu lýðræðissamfélags II - Forsetarnir í stjórnskipuninni

Guðmundur Ágúst Sæmundsson
  • Heimilisfang: Bólstaðarhlíð 64, 105 Reykjavík
  • Skráð: 01.06.2011 18:02

 

Forsetarnir í stjórnskipuninni

Í ljósi framvindu mála í Stjórnlagaráði vil ég bæta við fyrra erindi mitt, Leið að eflingu lýðræðissamfélags, og ræða sérstaklega um sameiningu forsetaembættanna í stjórnskipuninni, sem aðeins var stuttlega nefnd í fyrra erindi.

Á Íslandi höfum við tvo forseta í æðstu stjórn landsins, forseta lýðveldisins og forseta Alþingis. Sú hugmynd hefur oft komið fram að sami einstaklingur geti gegnt skyldum beggja þessara embætta. Yfirleitt, og kannski alltaf, hefur þá verið átt við að leggja megi embætti forseta Íslands niður og að forseti Alþingis geti tekið yfir þann hluta embættisverka hans sem ástæða þykir til að halda í. Ég nálgast þetta úr hinni áttinni og velti fyrir mér þeim möguleika að þjóðkjörinn forseti lýðveldisins gegni hlutverki forseta Alþingis.

Forsetaembætti sem kosið er til með beinni kosningu eru oftast tengd við framkvæmdarvaldið frekar en löggjafarvaldið. Þannig mætti ætla að ég vildi koma fulltrúa framkvæmdarvaldsins inn á Alþingi til að stýra þingstörfum. Ég lít alls ekki þannig á. Ég lít á forsetann sem beinan fulltrúa allrar þjóðarinnar, nokkurs konar umboðsmann hennar og sameiningartákn. Í því ljósi má hann ekki hafa mikil bein völd en hann mun þó hafa það hlutverk að liðka fyrir ýmsum málum.

Sem dæmi mun hann setja fram tillögur um dagskrá Alþingis en í framhaldinu birtir þingheimur hið eiginlega vald með atkvæðagreiðslu um tillögurnar á Alþingi. Forseti hefði ekki atkvæðisrétt. Auk þess gæti Alþingi jafnvel krafið forseta um að bera tilteknar tillögur undir atkvæði ef nauðsyn krefði.

Hlutverk forsetans væri að skipuleggja störf þingsins með hliðsjón af þeim pólitíska raunveruleika sem þar er, en þó ekki síst með hliðsjón af almannahag, til dæmis með þeim hætti að jafnræðis sé gætt milli allra kjörinna fulltrúa á Alþingi varðandi framlagningu mála, ræðutíma og þess háttar. Hann væri að þessu leyti nokkurs konar sáttasemjari inni á Alþingi.

Aðkoma forsetans að stjórnarmyndun væri svipuð. Hans hlutverk væri að liðka fyrir stjórnarmyndun og leggja tillögur fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar. Eins og ég nefndi í fyrra erindi mínu til Stjórnlagaráðsins þá gæti forsetinn tekið til greina tillögur frá almenningi og leitað til aðila sem þjóðin hefði sett ofarlega á lista á þar til gerðu vefsvæði. Þeir aðilar myndu þá vega og meta hvort þeir treystu sér til að vinna að þeirri stefnu sem kosið var sérstaklega um í alþingiskosningunum (tengist tillögu minni um að skilið sé á milli kosninga um persónur og kosninga um stefnu) og/eða eftir stefnuramma sem Alþingi mótaði eftir kosningar, ígildi stjórnarsáttmála.

Sem umboðsmaður þjóðarinnar tæki forsetinn við frumvörpum og öðrum þingmálum frá almenningi og setti inn á dagskrá þingsins samkvæmt reglum sem um það væru settar (sjá umfjöllun í fyrra erindi). Hann tæki einnig við beiðni um þjóðaratkvæðagreiðslur frá almenningi og afgreiddi þær samkvæmt skýrum reglum sem um það munu gilda. Í báðum tilfellum væri hann formlegur milligöngumaður en ekki með eiginleg völd.

Þar sem forseti (lýðveldisins og Alþingis) væri kosinn á öðrum tíma en Alþingi þá koma ekki upp nein vandamál við val á þingforseta þegar Alþingi er kallað saman eftir kosningar. Ekki þarf að skipa aldursforseta eins og nú er gert og orðið hefur að umræðuefni í Stjórnlagaráðinu. Aftur á móti kemur sú staða upp þegar forseti lætur af störfum og forsetakjör fer fram. Á þeim tímapunkti mætti þó röð varaforseta liggja löngu ljós fyrir, hvort sem þeir væru valdir í atkvæðagreiðslum á Alþingi eða til dæmis með slembivali úr hópi þingmanna.

Í Stjórnlagaráðinu er einnig uppi sú hugmynd að sá aðili sem valinn er sem forseti Alþingis að loknum kosningum, með auknum meirihluta, afsali sér atkvæðisrétti og kalli inn varamann. Þetta þykir mér lýsa vilja til þess að þingforseti starfi fyrir allt Alþingi en ekki ákveðinn meirihluta þar. Það tel ég gott markmið. Ég óttast hins vegar að til þess að þingmaður sé fús að afsala sér atkvæðisrétti á Alþingi í hendur varamanns (sem er mjög misauðvelt eftir því hvernig kosningafyrirkomulag verður valið) þá þurfi embætti þingforseta að hafa meiri bein völd en mér þykir æskilegt. Sé forsetinn þjóðkjörinn vita frambjóðendur til forseta að hverju þeir ganga og eru ekki að sækjast eftir atkvæðisrétti á Alþingi í kosningabaráttu sinni.

Ég tel að það geti farið vel á því að sameina embætti forseta Íslands og forseta Alþingis með þeim hætti sem hér er lýst. Til að dæmið gangi upp þarf þó að gera ýmsar breytingar á báðum embættunum og ýmsu sem þeim tengist. Með hliðsjón af þeim umræðum í Stjórnlagaráði sem ég hef heyrt undanfarnar tvær vikur held ég að þessi lausn falli ágætlega að hugmyndunum sem þar eru í gangi og leysi viss vandamál sem enn eru óleyst þar. Ég vonast því til að þessi hugmynd verðið vandlega skoðuð.

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.