Undirstöður

Ummæli:

 1. Handhafar ríkisvalds

  Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar.

  Ráðherrar, ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið.

  Hæstiréttur Íslands og aðrir dómstólar fara með dómsvaldið.

  Forseti Íslands er þjóðhöfðingi lýðveldisins og fer með þau verkefni er stjórnarskrá þessi tilgreinir.

 2. Yfirráðasvæði

  Íslenskt landsvæði er eitt og óskipt. Mörk íslenskrar landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu skulu ákveðin með lögum.

Upplýsingar

12. ráðsfundur: Kafli til kynningar

Skoða eldri útgáfur.

Skýringar frá nefnd

 1. Tillaga nefndar B er í takt við tillögur nefndarinnar sem hafa þegar verið lagðar fram varðandi Alþingi, ráðherra og ríkisstjórn og forseta Íslands. Alþingi fer eitt með löggjafarvaldið og ráðherrar og ríkisstjórn fara með framkvæmdarvaldið. Þá er að tillögu stjórnlaganefndar Hæstiréttur Íslands nefndur sérstaklega sem fer með dómsvaldið ásamt öðrum dómstólum. Um þessar breytingar er nánar fjallað í köflum um Alþingi, ráðherra og ríkisstjórn, forseta Íslands og dómstóla.
  Í nefndinni var rætt að tilgreina einnig fjárstjórnarvaldið sérstaklega, enda felst fjárstjórnarvaldið ekki í löggjafarvaldinu. Sveitarstjórnir heyra undir önnur stjórnvöld.
 2. Tillaga nefndar B er samhljóða hugmynd stjórnlaganefndar dæmi A. Ákvæðið er nýmæli þar sem lýst er afmörkum íslensks yfirráðasvæðis þótt ljóst sé hver mörk Íslands eru, þar sem landið er umlukið hafi og er ásamt nærliggjandi eyjum langt frá öðrum löndum. Þó þykir rétt að mæla svo fyrir í stjórnarskrá að landið sé eitt og óskipt. Í því felst að landinu verður ekki skipt i fleiri ríki eða hluti þess skilinn frá íslenska ríkinu nema með stjórnarskrárbreytingu.
  Hugmynd kom upp hvort hægt væri að nota aðeins orðið auðlindalögsaga, en það þarf frekari lögfræðilega yfirlegu hvort hugtakið nái yfir land- og lofthelgi sem og efnahagslögsögu.

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
 1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
 2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
 3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
 4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
 5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.